digiKam
Categories: GraphicsdigiKam er fullkomið umsýslukerfi stafrænna ljósmynda með opinn grunnkóða sem keyrir á Linux, Windows og MacOS. Hugbúnaðurinn gefur kost á skilvirku safni verkfæra til að flytja inn, skipuleggja, myndvinna og deila bæði ljósmyndum og RAW-skrám. Þú getur notað innflutningseiginleika digiKam til að flytja myndskrár og myndskeið beint af stafrænum myndavélum og milli utanáliggjandi geymslumiðla (SD-minniskort, USB-lyklar, o.s.frv.). Hugbúnaðurinn gerir kleift að setja upp reglur og stillingar við innflutning þannig að atriði séu skipulögð og unnin um leið.
digiKam raðar ljósmyndum, RAW-skrám og myndskeiðum í albúm. En hugbúnaðurinn býr einnig yfir öflugum tólum til merkinga (tags) sem gera þér kleift að útluta merkjum, einkunnum og skýringum á myndskrár. Þar með geturðu nýtt þér einstaklega öflugar síur til að finna myndir sem samsvara tilteknum skilyrðum.
Auk síunar býr digiKam yfir einstaklega öflugum leitarverkfærum sem gera þér kleift að finna myndir í söfnum út frá margbreytilegum skilyrðum. Þú getur leitað eftir merkjum, skýringum, einkunn, dagsetningum, staðsetningu ásamt sérhæfðum skilyrðum úr EXIF, IPTC eða XMP lýsigögnum. Þú getur líka sameinað mörg skilyrði í ítarlegri leitir. digiKam reiðir sig á Exiv2-aðgerðasafnið til að meðhöndla efni í lýsigögnum og myndasöfnum.
digiKam getur meðhöndlað RAW-skrár og styðst við hið framúrskarandi LibRaw-aðgerðasafn til að afkóða þær. Aðgerðasafninu er sífellt viðhaldið og reglulega uppfært með stuðningi við nýjustu gerðir myndavéla. digiKam getur einnig sýslað með myndskeið til flokkunar, styðst hugbúnaðurinn við FFmpeg-bakenda til að yfirfæra lýsigögn og að spila efnið.
Hugbúnaðurinn kemur með ágætu safni myndvinnsluverkfæra. Þar má telja ýmis grunnverkfæri til að laga liti, til utansníðingar og skerpingar, auk ítarlegri verkfæra til að laga litferla, setja saman víðmyndir og margt fleira. Sérstakt verkfæri sem byggir á Lensfun-aðgerðasafninu gerir kleift að beita linsuleiðréttingum sjálfvirkt á myndir.
Hægt er að útvíkka ýmsa virkni í digiKam í gegnum kerfi fyrir forritsviðbætur (kallað DPlugins fyrir digiKam-viðbætur). Hægt er að skrifa viðbætur sem sjá um flutning mynda til og frá fjartengdum vefþjónustum, til að bæta við aðferðum við myndvinnslu og til magnvinnslu mynda.
Eiginleikar:
- Skipulag mynda í albúmasöfn og undiralbúm (með stuðningi við merki og athugasemdir)
- Stuðningur við EXIF, IPTC, XMP, Makernotes
- SQLite eða Mysql gagnageymsla fyrir efni myndaalbúma og lýsigögn þeirra ásamt öflugum leitartólum
- Stuðningur við síun og röðun albúma
- Innflutningur frá meira en 1100 gerðum stafrænna myndavéla
- Stuðningur við meira en 900 RAW-myndasnið
- Ljósaborð til að bera saman myndir hlið við hlið
- Viðbótareiginleikar með fleiri verkfærum
- Deildu myndunum þínum með HTML eða sendu þær beint á fjartengdar vefþjónustur
- Innifalið öflugt myndvinnsluforrit með þróuðum verkfærum til að laga myndir fljótt og vel